PIN númer skipta máli

Vandaðu þig þegar þú velur PIN númer.

Þegar kemur að því að velja PIN númer fyrir rafræn skilríki borgar sig að vanda valið. Forðast skal að velja "augljósar" tölur eins og hluta úr kennitölu þinni eða fóki sem er þér nátengt. Eins eru PIN númer eins og 1234, 1111 og 0000 ekki góður kostur.

Á rafrænum skilríkjum í farsímum er hægt að velja PIN númer sem eru fjórir til átta tölustafir. Augljóslega eru átta tölustafa PIN númer öruggari en fjögurra tölustafa en ef PIN númerið er skrifað á blað og geymt á sama stað og síminn skiptir lengd þess engu máli. Því borgar sig ekki að velja of langt PIN ef þú treystir þér ekki til að muna það og skrifar það því á miða "til öryggis". ALDREI skal skrifa PIN númer á blað eða setja í óvarða geymslu á símanum sjálfum. Það sama á við um PIN númer sem eru notuð til að opna símann.

Það getur því verið snúið að velja öruggt PIN sem tengist manni ekki augljóslega en samt gott að muna. Gott er því að vera búinn að velja tölurnar áður en farið er á skráningastöð og PIN númer valið.

Eins er hægt að skipta sjálfur um PIN númer í farsímum. Sjá nánar hér: Breyta PIN númeri

Ef rangt PIN númer er slegið inn fimm sinnum þá læsast skilríkin og verða ónothæf. Viðkomandi þarf þá að fara aftur á skráningastöð og fá ný skilríki.