Starfsskilríki

Þann 16. september 2022 tók við ný útgáfa af skilríkjum á korti.

Þeir sem eiga gömlu skilríkin munu geta notað þau þangað til þau renna úr gildi – því þarf ekki að panta ný skilríki áður en gömlu renna út!

Notendur þurfa að sækja og setja upp Smart ID hugbúnaðinn sem má finna hér. Nexus Personal hugbúnaðurinn, sem notaður var fyrir gömlu kortin, er því óþarfur. Aðeins þarf að vera með SmartID uppsett á tölvunni.

Á meðan gömlu skilríkin eru ennþá í notkun mun notendum bjóðast að skrá sig inn ýmist með gömlu eða nýju kortunum. Þegar valið er að skrá sig inn með skilríkjum á korti mun opnast gluggi sem spyr hvora týpuna af korti þú ert að nota. Til þess að vita hvort að þú sért með gamla eða nýja kortið geturðu kíkt aftan á það. Ef persónuupplýsingar eru prentaðar aftan á kortið, er það gamla týpan og þá velurðu innskráningu með gamla kortinu (innskráning með Nexus Personal). Ef engar persónuupplýsingar er að sjá aftan á kortinu ertu með nýju týpuna af kortinu (innskráning með SmartID).

Kort-bakhlid

Starfsskilríki eru kjörin fyrir einstaklinga tengdum fyrirtækjum til notkunar með bókhaldskerfum, samskiptum við tollstjóra og skattayfirvöld, innskráningar á vefsvæði og undirritunar rafrænna skjala.

Starfsskilríki eru gefin út á einstakling en með tengingu við fyrirtæki. Á skilríkjunum er kennitala skilríkjahafans og einnig kennitala og nafn fyrirtækis.

Starfsskilríki eru gefin út undir Íslandsrót af Auðkenni og eru plastkort í sömu stærð og greiðslukort. Á kortinu er örgjörvi sem hýsir skilríkin á mjög öruggan máta. Í örgjörvanum eru tvenn skilríki, auðkenningarskilríki og undirritunarskilríki. Skilríkin eru fullgild sem þýðir að þau fylgja ákveðnum ströngum öryggiskröfum í framleiðslu og afhendingarferlum.

Rafræn skjöl, undirrituð með fullgildum rafrænum skilríkjum,  standa lagalega jafnt að vígi og skjöl undirrituð með penna.

ATH. Ekki er hægt að fá rafræn skilríki virkjuð nema að mæta í eigin persónu á skráningarstöð og framvísa lögbundnum persónuskilríkjum. 
Engar undantekningar eru á þeirri reglu.

Sjá samanburð á skilríkjum

Gjaldskrá

Starfsskilríki 1 ár 13.200 kr. án vsk. 
Starfsskilríki 2 ár 22.800 kr. án vsk.
Starfsskilríki 3 ár 32.400 kr. án vsk.
Starfsskilríki 4 ár 38.400 kr. án vsk.

Sækja um starfsskilríki

Leiðbeiningar fyrir umsókn um starfsskilríki

Starfsskilríki eru gefin út af Auðkenni á sérstökum kortum sem eru í sömu stærð og greiðslukort. Þessi kort eru með sérstaka örgjörva sem hýsa skilríkin í mjög öruggri geymslu.

Þegar sótt er um starfsskilríki þá þarf að tilgreina þann aðila sem er með prókúru á kennitölu fyrirtækisins. Þessi aðili þarf að skrifa undir áskriftarsamning við Auðkenni. Við vottun þarf aðeins að skrifa undir einn áskriftarsamning þó sótt sé um mörg skilríki. 

Prókúruhafi getur einnig veitt öðrum aðilum umboð til þess að sýsla með rafræn skilríki fyrir hönd fyrirtækisins og skrifa undir áskriftarsamninginn. Hér getur þú sótt staðlað umboð sem hægt er að undirrita rafrænt: Sækja umboðseyðublað

Ef um hlutafélag er að ræða kannar Auðkenni opinbera hlutafélagaskrá til að staðfesta að viðkomandi aðili hafi prókúru. Ef ekki er hægt að fá upplýsingar úr hlutafélagaskrá þarf viðkomandi að sanna á einhvern hátt að hann hafi slíka prókúru.

Eftir að umsóknarform er fyllt út birtist áskriftarsamningurinn í lokin ef hann er ekki til fyrir. Tölvupóstar eru sendir á skilríkjahafann og prókúruhafa sem þeir þurfa að lesa og staðfesta með því að smella á staðfestingarhlekki í þeim. Áskriftarsamningurinn er jafnframt sendur til rafrænnar undirritunar prókúruhafans.

Starfsfólk Auðkennis fer yfir umsóknina, kannar prókúruréttindi, að netföng séu tengd fyrirtæki og fleira. Ef þess þarf er hringt í viðkomandi fyrirtæki til frekari vottunar. Ef umsókn er samþykkt fær skilríkjahafi póst þess efnis. Því næst fer skilríkjahafi í það útibú sem hann valdi, með persónuskilríki meðferðis og fær starfsskilríkin virkjuð.