Starfsskilríki eru gefin út af Auðkenni á sérstökum kortum sem eru í sömu stærð og debetkort. Þessi kort eru með sérstaka örgjörva sem hýsa skilríkin í mjög öruggri geymslu.
Þegar sótt er um starfsskilríki þá þarf að tilgreina aðila sem er með prókúru á kennitölu fyrirtækisins. Þessi aðili þarf að skrifa undir áskriftarsamning við Auðkenni. Aðeins þarf að skrifa undir einn áskriftarsamning þó sótt sé um mörg skilríki.
Prókúruhafi getur einnig veitt öðrum aðilum umboð til að sýsla með rafræn skilríki fyrir hönd fyrirtækisins og þeir þá skrifað undir áskriftarsamninginn. Hér getur þú sótt staðlað umboð sem hægt er að undirrita rafrænt: Sækja umboðseyðublað
Ef um hlutafélag er að ræða kannar Auðkenni opinbera hlutafélagaskrá til að staðfesta að viðkomandi hafi prókúru. Ef ekki er hægt að fá upplýsingar úr hlutafélagaskrá þarf viðkomandi að sanna á einhvern hátt að hann hafi slíka prókúru.
Eftir að umsóknarform er fyllt út birtist áskriftarsamningurinn í lokin ef hann er ekki til fyrir. Prenta þarf hann út, undirrita og senda til Auðkennis. Tölvupóstar eru sendir á skilríkjahafann og prókúruhafa sem þeir þurfa að lesa og staðfesta með því að smella á staðfestingarhlekki í þeim.
Starfsfólk Auðkennis fer yfir umsóknina, kannar prókúruréttindi, að netföng séu tengd fyrirtæki og fleira. Ef þarf er hringt í viðkomandi fyrirtæki til frekari vottunar. Ef umsókn er samþykkt er kort með skilríkjunum framleitt, sent í bankaútibú sem var valið í umsókninni og PUK númer sent á lögheimili skilríkjahafa. Áætla má að þetta taki 3-4 virka daga.