Skrifuðu rafrænt undir ársreikning frá sjö mismunandi stöðum

Undirritun ársreiknings

Stjórnarmenn í Auðkenni skrifuðu í síðustu viku rafrænt undir ársreikning félagsins með farsímum frá sjö stöðum í heiminum. Undirritanirnar fóru fram í þremur löndum; Þýskalandi, Bandaríkjunum og fjórum sveitarfélögum á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem skrifað er undir ársreikning með þessum hætti hér á landi og sennilega í öllum heiminum. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál greinir frá þessu.

Ársreikningurinn var lagður fram á stafrænu formi á aðalfundi Auðkennis í gær og verður fundargerð hans samþykkt með rafrænum undirskriftum. Umsýsla í kringum ársreikninginn og aðalfund er því að öllu leyti pappírslaus.

Íslenski hugbúnaðurinn CoreData-BoardMeeting var notaður til verksins en hann hefur íslenska hugbúnaðar- og þekkingarfyrirtækið Azazo (áður Gagnavarslan) þróað. Með CoreData BoardMeeting eru stjórnarfundir skipulagðir og í samvinnu við Auðkenni og finnska fyrirtækið Valimo er nú hægt að skrifa undir skjöl og samninga með rafrænum skilríkjum beint í CoreData.

Rafræn skilríki hafa verið að ryðja sér til rúms á Íslandi og þau eru það sem koma skal. Með þeim er bæði hægt að spara pappír og ekki síst fyrirhöfn,“ segir Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis. „Það er til dæmis ekki lengur þörf á að mæta á staðinn til að skrifa undir. Handhafar skrifa einfaldlega undir með rafrænum skilríkjum hvar sem þeir eru staddir í heiminum.“

Sem fyrr segir var skrifað undir ársreikninginn frá sjö stöðu m í heiminum. Óskar Jósefsson, stjórnarformaður Auðkennis, var staddur í Vestmannaeyjum þegar hann skrifaði undir, Marteinn Már Guðgeirsson á Kirkjusandi í Reykjavík, Marina Candi á flugvellinum í Frankfurt í Þýskalandi, Sigurður Rúnarsson á Manhattan í New York, Þór Jes Þórisson í bíl í Hafnarfirði, Matthías Þór Óskarsson endurskoðandi hjá KPMG í Borgartúni í Reykjavík og Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, var staddur út í Gróttu á Seltjarnarnesi.

„Það að skrifa undir ársreikning nú eða önnur gögn með rafrænum hætti er að okkar mati örugg aðferð sem mun ábyggilega verða æ algengari. Í hagræðinu fellst tímasparnaður og varðveisla gagna er algerlega tryggð.  Í þessu felst engin breyting á vinnulagi við endurskoðun eða samskiptum okkar við stjórn og starfmenn viðskiptavinarins,“ segir Matthías Þór Óskarsson, endurskoðandi KPMG.

Rafræn skilríki uppfylla íslenskar og evrópskar lagareglur og eru liður í því að auka öryggi og trúnað í rafrænum samskiptum. Skilríkin byggja á öruggustu tækni sem þekkist og miða að því að auka öryggi í rafrænum samskiptum. Rafræn skilríki eru þeim kostum búin að ekki þarf lengur að muna mörg notendanöfn eða leyniorð á netinu. Þá er hægt að nota þau til að skrifa undir skjöl og ekki er gerlegt að breyta skjölum sem hafa verið undirrituð án þess gera undirskrift ógilda. Auðvelt er að rekja hver skrifaði undir – hvað og hvenær.

Þegar hafa 100 þúsund rafræn skilríki verið virkjuð hér á landi og hægt er að nota þau hjá um 140 fyrirtækjum eða opinberum stofnunum.

Það færist í vöxt að fyrirtæki  og opinberar stofnanir noti rafræn skilríki, bæði til auðkenningar sem og til að skrifa undir samninga eða önnur skjöl. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra undirritaði sem dæmi tilkynningu frá ráðuneytinu til Alþingis með rafrænum skilríkjum í desember síðastliðnum. Hefðin hefur verið sú að slíkar tilkynningar séu undirritaðar af ráðherra með bleki á pappír.

Í lok febrúar nýtti Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sér svo CoreData-BoardMeeting þegar hún undirritaði skjal með farsíma á stærstu farsímaráðstefnu heims sem fram fór í Barcelona.