Fyrsti ársreikningurinn á Íslandi á rafrænu formi

Fyrsti ársreikningurinn á Íslandi sem eingöngu verður til á rafrænu formi

  • Rafrænt undirritaður ársreikningur sendur til ársreikningaskrár
  • Hluthafar munu skoða reikninginn með spjaldtölvum á aðalfundi

Aðalfundur Auðkennis, sem verður haldinn á morgun, föstudaginn 27. apríl, kl. 15.00 á Hilton Reykjavík Nordica, verður óvenjulegur að því leyti að þar verður enginn pappír notaður. Ársreikningur fyrirtækisins verður jafnframt sá fyrsti hér á landi, sem eingöngu verður til á rafrænu formi. Engin eintök verða prentuð á pappír af hálfu Auðkennis og öll umsýsla, undirritun, samþykktir og skil ársreikningsins eru rafræn. Hluthafar á aðalfundi munu skoða reikninginn með spjaldtölvum ásamt því að taka við varanlegu eintaki ársreikningsins á minniskubbi sem einnig er kortalesari fyrir fullgild rafræn skilríki. Fyrr í vikunni undirritaði Haraldur A. Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis ásamt stjórn og endurskoðanda fyrirtækisins, ársreikninginn með rafrænum skilríkjum.

Flest rafrænt hjá Auðkenni

Hjá Auðkenni starfa 10 manns sem allir hafa undirritað ráðningarsamninga sína við félagið með rafrænum skilríkjum. "Eðli málsins samkvæmt leggjum við ofuráherslu á að allir samningar, tilkynningar eða undirskriftir séu gerðar með rafrænum skilríkjum" segir Haraldur og bætir við að samningar við birgja og undirverktaka séu undirritaðir með rafrænum skilríkjum. Stjórnin samþykkir fundargerðir og staðfestir með rafrænni undirritun og tilkynningar til opinberra aðila eru rafrænt undirritaðar og sendar rafrænt, auk beiðna um gjaldeyriskaup og fleira.

Fyrirtækið Auðkenni sem er í eigu Landsbankans, Íslandsbanka, Arion banka, Símans og Teris var stofnað í september árið 2000 vegna vaxandi krafna fjármála- og fjarskiptafyrirtækja um aukið öryggi í rafrænum viðskiptum. Auðkenni er eina fyrirtækið á Íslandi sem býður fullgild rafræn skilríki. Bankar og sparisjóðir hafa nú þegar framleitt yfir 230 þúsund debetkort með rafrænum skilríkjum fyrir 170 þúsund einstaklinga sem er ein mesta dreifing rafrænna skilríkja í Evrópu. Öllum almenningi stendur til boða að fá rafræn skilríki á debetkorti án endurgjalds. Skilríkin má nota til auðkenningar á netinu hjá yfir 70 þjónustuaðilum, innanlands og erlendis; hjá ríki, sveitarfélögum, lífeyrissjóðum, almennum fyrirtækjum og fleirum. Skilríkin má einnig nota til fullgildra rafrænna undirskrifta án hindrana.