Rafræn skilríki í farsímann

Heimasida_Vodafone.png

Nú geta viðskiptavinir Vodafone fengið ný SIM-kort í símtækin sín, sem gera þeim kleift að auðkenna sig rafrænt.

Með rafrænum skilríkjum í símanum má auðkenna sig á öruggan hátt á netinu og staðfesta skjöl með rafrænum hætti, í stað þess að undirrita þau upp á gamla mátann.

Einfaldast er að óska eftir því að fá nýtt SIM-kort sent heim. Óska má eftir því á vef Vodafone þar sem einnig má lesa frekari upplýsingar um nýju SIM-kortin. Þegar nýtt SIM-kort hefur verið sett í símann þarf að fara á skráningarstöðvar á vegum Auðkennis til að virkja sjálf rafrænu skilríkin.

Nýtist til rafrænna samskipta við fjölda fyrirtækja og stofnana

Rafræn skilríki má t.d. nota til innskráningar á vefi fyrirtækja og stofnana og til rafrænnar undirritunar á skjölum. Það getur sparað fólki verulega sporin við ýmis samskipti, t.d. við opinberar stofnanir, banka og önnur fyrirtæki. Einnig hefur talsverð umræða verið um rafræn skilríki að undanförnu í tengslum við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar, en gerð er krafa um að rafræn skilríki verði notuð við samþykki leiðréttingarinnar.

Viðskiptavinir Vodafone þurfa ekki að greiða fyrir nýja SIM-kortið og fram til áramóta verður þjónustan gjaldfrjáls. Frá og með 1. janúar 2015 verður innheimt gjald fyrir hverja notkun skilríkjanna, til að standa straum af kostnaði við þjónustuna.