Rafræn skilríki fyrir rafrænar kosningar

Rafræn kosning með rafrænum skilríkjum auðveldar þátttöku almennings í ákvarðanatöku og getur leyst flóknar kosningar eins og til stjórnlagaþings.

  • Rafræn skilríki byggja á bestu tækni sem nú er þekkt til að auka öryggi í rafrænum samskiptum – og auðvelda aðgengi að lýðræðislegum ákvörðunum.
  • Rafræn kosning með rafrænum skilríkjum getað minnkað kostnað verulega
  • Rafræn kosning með rafrænum skilríkjum eru kjörin leið fyrir flóknar kosningar

Þegar kosið er rafrænt velur maður sjálfur stund og stað. Með öruggum búnaði og  rafrænum skilríkjum má koma í veg fyrir rekjanleika upplýsinganna. Enginn óviðkomandi getur séð hvað maður kýs, enginn getur þóst vera annar en hann er, enginn getur rakið atkvæðið, talning verður leifturhröð og vandamál sem upp komu vegna fjölda frambjóðenda til stjórnlagaþings og leiddu til ákvarðana um breytt fyrirkomulag í kjördeildum væru úr sögunni. Venjulegt fyrirkomulag, hefðbundnar kjördeildir, kjörkassar og atkvæðaseðlar á pappír væru fyrir þá sem ekki hentar að kjósa rafrænt.

Rafrænar kosningar eru hagkvæmari kostur en hefðbundnar kosningar og auðvelda þannig stjórnvöldum að auka þátttöku almennings við ákvarðanatöku, með beinu lýðræði. Þjóðin getur oftar sagt skoðun sína án íþyngjandi kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Þeir sem nýttu sér hjálparkjörseðilinn við kosninguna til stjórnlagaþingsins höfðu margir á orði að frábært hefði verið að vali loknu að geta aðeins ýtt á takka, valið sent og málið afgreitt.  Sá veruleiki er í sjónmáli, tæknin er til reiðu og aðrir hlutar framkvæmdarinnar í vinnslu.

Rafræn skilríki byggja á bestu tækni sem nú er þekkt til að auka öryggi í rafrænum samskiptum. Nú þegar eru handhafar rafrænna skilríkja 55 þúsund. Fyrirsjáanlegt er að þeim muni fjölga ört á næstunni og þess verður ekki langt að bíða að hagkvæmnin ráði og flestir Íslendingar kjósi rafrænt.

Útbreiddasta notkun rafrænna skilríkja er á debetkortum. Skilríkin uppfylla íslenskar og evrópskar lagareglur og eru liður í því að auka öryggi og trúnað í rafrænum samskiptum. Nýta má kosti rafrænna skilríkja víða og hægt er að kynna sér þjónustuna á www.skilriki.is eða í bönkum og sparisjóðum.

Hverjir standa að rafrænum skilríkjum?

Auðkenni er útgefandi rafrænna skilríkja en bakhjarlar verkefnisins eru íslenska ríkið og samtök fjármálafyrirtækja.

Eigendur Auðkennis eru Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Síminn og Teris.

Upplýsingar veitir:
Elfur Logadóttir, lögfræðingur, Auðkenni.
elfur@audkenni.is. Sími: 580 6400.